Afnotaréttur – Réttur, sem notandi hefur aflað sér til að nota búnað með tilgreindum hætti.
Ábyrgð – Skuldbinding OK um að lagfæra framleiðslugalla í búnaði, og ófullkomna þjónustu á þjónustutímabili án sérstaks endurgjalds.
Ábyrgðarþjónusta – Sú lágmarksþjónusta, sem veitt er í því skyni að standa undir ábyrgð án skuldbindinga um viðbragðstíma, tiltæka varahluti eða þjónustu við hugbúnað. Að jafnaði veitt án sérstaks endurgjalds.
Aukin ábyrgðarþjónusta – Þjónusta, sem auk ábyrgðarþjónustu getur falið í sér skuldbindingu um viðbragðstíma, þjónustutíma og tryggingu fyrir tiltækum varahlutum á ábyrgðartíma vélbúnaðar. Ávallt veitt gegn gjaldi.
Bilun – Vélbúnaður eða hugbúnaður vinnur ekki eins og til er ætlast samkvæmt útgefnum lýsingum.
Búnaðareining – Hluti af búnaði, sem er byggður sem sérstök viðbót þannig að hún falli inn í tilgreindan búnað og geti starfað með honum.
Búnaður – Hvers kyns vélar, hugbúnaður og aðrar vörur, sem OK selur í eigin nafni
Eignarréttur – Réttur eiganda til búnaðar og ráðstöfunar á honum.
Eindagi – Síðasti greiðsludagur reiknings án viðurlaga. Sé greitt eftir eindaga miðast vanefndaúrræði þó við útgáfudag reiknings.
Fjartenging – Starfsmaður OK aðstoðar viðskiptavin í gegnum síma eða annað fjarvinnslubúnað frá starfstöð OK.
Forritapakki – Hugbúnaður í véllesanlegu formi frá öðrum framleiðendum en OK, sem dreift er á grundvelli skilmála framleiðenda, er fylgja með í pakkanum.
Framleiðslugalli – Galli í vélbúnaði, sem stafar af misfellu í framleiðslu þannig að vélbúnaðurinn vinnur ekki eins og lýsingarkröfur hans segja til um.
Fylgihlutir – Valkvæður búnaður, sem tilheyrir vél og er nauðsynlegur við notkun hennar í skilgreindum tilgangi án þess að vera hluti af henni.
Gagnaefni – Upplýsingaefni í véltæku formi að frátöldum hugbúnaði.
Hugbúnaðarþjónusta – Auglýst og skipulagt fyrirkomulag fyrir tilgreindan hugbúnað í því skyni að veita viðtöku villuboðum frá viðskiptavini og útvegun leiðréttinga frá framleiðanda eða þjónustumiðstöð hans. Að jafnaði veitt gegn gjaldi.
Hugbúnaður – Samheiti yfir hvers konar setningar, skipanir og forrit í véllesanlegu eða prentuðu formi, sem lúta að notkun gagnavinnslukerfa.
Leyfisforrit – Hugbúnaður, sem dreift er á grundvelli leyfisskilmála framleiðanda og leyfð er notkun á við tilgreinda vél.
Lýsingarkröfur – Lýsing framleiðanda búnaðar á því hvernig hann skuli vinna.
Neytendakaup – Kaup í einkaþágu, sem stofnað er til af einstaklingi utan atvinnurekstrar.
Notendauppsetning – Uppsetning á búnaði, sem viðskiptavini er ætlað að gera.
Notendahugbúnaður – Hugbúnaður, sem sérstaklega er ætlaður til að leysa viðfangsefni, er notandi leggur fram og leysa þarf í tölvu.
Rekstrarvara – Efnisvara til reksturs búnaðar án þess að vera hluti af honum.
Skiptivél/ skiptihlutur – Vélbúnaður eða hluti af vélbúnaði, sem OK setur að eigin frumkvæði í vél til að lagfæra bilun eða galla.
Stýriforrit – Hugbúnaður, sem sér notendahugbúnaði fyrir aðföngum tölvukerfis og stjórnar því hvernig forrit eru framkvæmd en er sjálfur óháður einstökum verkefnum.
Tengibúnaður – Sjálfstæður vélbúnaður, sem tengist vél í skilgreindum tilgangi.
Uppfærsla – Aðgerð, sem miðar að því að auka afkastagetu búnaðar með viðbótarbúnaðareiningum.
Uppsetning – Vélbúnaður og/eða hugbúnaður, sem komið er fyrir hjá notanda þannig að hvort tveggja sé tilbúið til notkunar.
Uppsetningardagur – Sá dagur, sem starfsmenn OK koma vél í starfhæft ástand hjá viðskiptavini. Sé um notendauppsetningu að ræða er uppsetningardagur kaupdagur vélar.
2.1 Gildistaka og gildissvið
Skilmálar þessir og ákvæði þeirra eiga við um öll viðskipti sem aðilar gera sín á milli um kaup á vörum og þjónustu, nema þeir semji um annað með skriflegum hætti.
Skilmálar þessir skulu gilda um öll atriði, nema kveðið sé á um hið gagnstæða með skýrum hætti í sérskilmálum eða samningum aðila.
Þegar um er að ræða kaup neytenda, þ.e. einstaklinga utan atvinnustarfsemi, á búnaði gilda lög um neytendakaup, nr. 48/2003, um kaupin feli lögin í sér hagstæðari kjör en skilmálar þessir. Með sama hætti gilda lög um þjónustukaup, nr. 42/2000, um kaup neytenda á þjónustu ef ákvæði þeirra laga eru neytanda hagstæðari en ákvæði skilmálanna.
Kaup á búnaði frá OK eru almennt háð lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000, þar sem ákvæðum þessara skilmála, sérskilmála, samninga eða viðskiptavenju milli aðila sleppir.
2.2 Tilboð
Með formlegu samþykki viðskiptavinar á tilboði OK er kominn á samningur um viðskipti og gilda um þann samning þessir Almennu skilmálar, nema þeir semji um annað með skriflegum hætti. OK skilgreinir gildistíma tilboðs og er óbundið af því hafi því ekki verið tekið með formlegum hætti, þegar það rennur út.
2.3 Samningar og viðaukar
OK kann að óska eftir sérstökum samningi um einstök viðskipti, þar sem kveðið er á um gildistíma samnings, upphafsdag, umfang, vöru og þjónustu, verð og ábyrgðartíma. Sérstakir viðaukar kunna að verða gerðir við slíka samninga, er tilgreina sérstakar vöru og þjónustulýsingar.
Kominn er á samningur um viðskipti á milli OK og viðskiptavinar, þegar viðskiptavinur hefur staðfest tilboð, undirritað samning eða samningsviðauka, tekið vöru eða þjónustu í notkun eða greitt fyrir vöru eða þjónustu til OK. Staðfest tilboð, samningur ásamt samningsviðaukum, sé um það að ræða, og hinum Almennu skilmálum myndar þannig heildarsamning aðilanna.
2.4 Uppsögn samninga
OK getur hvenær sem er, fyrirvara- og bótalaust, sagt upp samningi við viðskiptavin vegna rofs hans á samningsskyldum nema annað leiði ótvírætt af skilmálum þessum, sérskilmálum, samningum eða lögum. Eigi OK viðskipti við viðskiptavin á grundvelli fleiri samninga en eins leiða brot hans á einum samningi til þess að OK getur sagt upp öllum samningum sínum við viðskiptavininn.
Uppsagnarfrestur viðskiptavinar á samningi við OK er líðandi mánuður + 1.
2.5 Misræmi í skilmálum
Sé misræmi í texta Almennra skilmála og texta samnings eða samningsviðauka gildir texti samnings eða samningsviðauka.
3.1 Afhending á búnaði og þjónustu
OK eitast við að afhenda búnað og þjónustu á umbeðnum eða umsömdum tímum og upplýsa viðskiptavini eftir föngum um stöðu mála hverju sinni.
Sé um afgreiðslufrest að ræða er hann tilgreindur í samningi. Er hann jafnan áætlaður og ekki bindandi fyrir OK, nema það sé tekið fram með skýrum hætti.
3.2 Endursala og endurráðstöfun
Búnaður, sem OK selur, er keyptur til eigin nota kaupanda án ásetnings um endursölu. Um endursölu gilda sérstakir samningar, sjá kaflann um Umboðsviðskipti og samstarfsaðila. Við útflutning á búnaði ber að fara að gildandi reglum um vöruútflutning.
4.1 Umboðsviðskipti
OK getur selt búnað í umboði þriðja aðila. Slíkir aðilar geta borið beina ábyrgð gagnvart viðskiptavinum eða falið OK að annast um nauðsynlega þjónustu á ábyrgðartíma búnaðar. OK leitast við að tryggja að umboðsviðskiptavinir OK fái þjónustu, sem jafnast á við þjónustu OK við búnað, sem OK selur í eigin nafni.
4.2 Samstarfsaðilar
OK gerir samninga við samstarfsaðila um sölu og þjónustu á tilgreindum búnaði og tilheyrandi þjónustu. OK ber ekki ábyrgð á viðskiptum samstarfsaðila við viðskiptavini þeirra en leitast engu að síður við að aðstoða við markaðsfærslu samkvæmt samstarfssamningum.
Í samstarfssamningum OK við samstarfsaðila er eftirfarandi haft að leiðarljósi:
4.3 Ábyrgð samstarfsaðila
Hafi um það verið samið milli samstarfsaðila OK og OK, veitir OK viðskiptavinum samstarfsaðila hliðstæða ábyrgðarþjónustu og OK veitir eigin viðskiptavinum eftir því sem nánar er kveðið á um í samstarfsaðilasamningi, sem ætlast er til að aðilar geri með sér.
5.1 Sala á búnaði
Um kaup á búnaði, þ.m.t. innihald, kröfur og samsetningu búnaðar, fer eftir samningum aðila eða pöntunum viðskiptavina, sem sendar hafa verið OK og samþykktar af hálfu OK með skriflegum hætti.
5.1.1 Eignarréttur
OK heldur eignarrétti að hinum selda vélbúnaði þar til andvirði hans er að fullu greitt. Samþykktir víxlar, skuldaviðurkenningar, greiðsla með ávísun, greiðslukorti eða öðrum áþekkum greiðslumiðli afnemur ekki eignarréttinn fyrr en full skil hafa verið gerð. Sala, framsal, veðsetning eða ráðstöfun búnaðar, sem ekki er að fullu greiddur, er óheimil án undangengins samþykkis OK.
Viðskiptavinir hafa afnotarétt af stýriforrit i og forritapökkum á einkatölvur. Engin önnur réttindi flytjast til viðskiptavina á grundvelli samnings aðilanna.
5.1.2 Áhættuskipti
Áhætta vegna vélbúnaðar flyst til viðskiptavinar við afhendingu eða á uppsetningardegi, ef samið hefur verið við OK um uppsetninguna. OK ber áhættu þangað til.
5.2 Sala á þjónustu
Um kaup á þjónustu fer eftir samningum aðila eða pöntunum viðskiptavina, sem sendar hafa verið OK og samþykktar af hálfu OK með skriflegum hætti.
5.2.1 Umfang þjónustu
OK veitir fagþjónustu á sviði upplýsingatækni við ráðgjöf, kerfishönnun, forritagerð, uppsetningarvinnu á búnaði, viðhald búnaðar og annað sem tilgreint er í samningi. Þjónusta OK kann að vera í stöðluðu formi eða aðlöguð að aðstæðum hverju sinni. Í aðalatriðum er um eftirfarandi samningstegundir að ræða:
Verkefnissamningur, sem gildir um ákveðið verkefni, sem skilgreint er í samningi, og gildir á meðan á vinnslu þess stendur. Verkefnissamningur er óuppsegjanlegur á samningstímabili nema ákvæði um riftun eigi við. Viðskiptavinur skal greiða fyrir alla þjónustu, allan búnað og fylgihluti, sem látið er í té fram til loka samningsins. Ennfremur skal hann greiða hliðstæð útgjöld, sem stofnað hefur verið til og óafgreidd eru á lokadegi samnings.
Samningur um þjónustu, sem getur verið tímabundin eða ótímabundin. Tímabundin þjónusta er veitt í skilgreindan tíma og framlengist sjálfkrafa að þeim tíma loknum nema annar hvor samningsaðila segi henni upp. Ótímabundinni þjónustu lýkur, er annar hvor samningsaðila segir henni upp til slita samkvæmt ákvæðum samnings.
OK veitir ábyrgðarþjónustu og aukna ábyrgðarþjónustu í samræmi við söluskilmála búnaðar.
Aukaverk eru háð sérstöku samkomulagi og reikningsfærð sérstaklega.
5.2.2 Starfsfólk og undirverktakar
Hvor samningsaðili um sig ber ábyrgð á störfum starfsmanna sinna, er koma að framkvæmd þjónustusamnings. Hvor aðili tilnefnir fulltrúa fyrir sína hönd til að annast daglega framkvæmd samnings. OK getur að eigin vali ráðstafað starfsfólki sínu til að veita þjónustu samkvæmt samningnum eða fengið til þess undirverktaka eða starfsmenn þriðja aðila. Gerð samnings stendur ekki í vegi fyrir því að OK, starfsfólk OKsamsteypunnar eða undirverktakar leysi af hendi hliðstæð þjónustuverkefni fyrir aðra aðila.
5.3 Hugbúnaður frá öðrum – forritapakkar
Hugbúnaður og leyfisforrit frá öðrum en OK er selt á forsendum framleiðandans eða eiganda réttindanna. Yfirleitt er um að ræða sölu á einkaleyfisbundnum, óframseljanlegum réttindum til notkunar þannig að eignarréttur til hugbúnaðarins er ekki seldur, heldur aðeins réttindin til að nota hann.
Heimild til notkunar kann að gilda um ákveðinn umsaminn tíma.
Hugbúnað af þessu tagi má ekki selja, leigja, framselja eða afhenda öðrum, nema um það sé sérstaklega samið. Afritun er háð takmörkunum, er framleiðandi eða eigandi hugbúnaðarins setur.
Hugbúnaðarþjónusta kann að vera í boði við þessa tegund hugbúnaðar. Framleiðandi hugbúnaðarins eða OK í umboði hans veita þá þessa þjónustu eftir því sem skilgreint er í samningi.
5.4 Forritapakkar
Hugbúnaður frá öðrum en OK er seldur með tölvuvélbúnaði og ætlaður til notkunar á eina vél í einu en afritun hugbúnaðarins er háð takmörkunum og skilmálum framleiðenda.
5.5 Endurgjald
Gjöld fyrir vöru og þjónustu OK eru listaverð í verðskrám, sérverð eða tilgreind verð í samningi.
Öll aukaverk, sem OK vinnur í þágu viðskiptavinar að hans ósk og ekki er kveðið á um sérstaklega í samningum milli aðila, eru gjaldkræf.
Skilmálar um endurgjald á dagvinnutíma:
Lágmarks tími í fjarvinnu er 15 mín.
Lágmarkstími í útkalli, ekki í fjartengingu, er 1 klst.
Skilmálar um endurgjald utan dagvinnutíma:
Útkall unnið í fjarvinnu er lágmark 2 klst og 4 klst ef ekki í fjartengingu.
Ef viðskiptavinur er með bakvaktar samning er lágmark 1 klst í fjarvinnu og 2 klst ef ekki í fjarvinnu.
Ef útkall er lengra en samkvæmt því sem að ofan er talið, í skilmálum um endurgjald á og utan dagvinnutíma, greiðir viðskiptavinur fyrir hverja unna klst samkvæmt gjaldskrá OK.
Ofangreindir skilmálar gilda, nema um annað sé samið.
Dagvinnutími er skilgreindur sem 9-17 virka daga.
5.6 Breytingar á verðskrám
OK áskilur sér rétt til að breyta verðskrám sínum eftir þörfum hverju sinni. Hafi aðilar samið sín á milli um fast verð á gildistíma samnings, skal það þó ekki breytast nema með breytingu á samningi.
OK áskilur sér rétt til þess að breyta verði vegna notendaleyfa og búnaðar, sem OK greiðir fyrir í erlendri mynt, í samræmi við gengisþróun íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Við óvenjulegar aðstæður svo sem við gengislækkun á skömmum tíma, er OK heimilt að tilkynna viðskiptavini um verðbreytingar með skemmri fyrirvara.
5.7 Ferðakostnaður og flutningsskilmálar
Í samningi kann að vera kveðið á um greiðslur vegna sérstakra flutningsskilmála eða sérstakrar umsýslu, sem viðskiptavinur kann að óska eftir. OK mun upplýsa um slíkt áður en til viðskiptanna er stofnað.
OK gerir tilkall til sérstakrar greiðslu fyrir eftirfarandi nema um annað sé samið. Upptalning er ekki tæmandi:
5.8 Reikningar
Viðskiptavinur ber fulla ábyrgð á að greiðslur fyrir vörur og búnað berist OK á réttum tíma.
Athugasemdir skulu gerðar við útgáfu reikninga án tafar og eigi síðar en á eindaga þeirra. Teljast reikningar ella samþykktir af hálfu viðskiptavinar. Hafi athugasemdir viðskiptavinar borist eftir eindaga og atvik réttlæta með ótvíræðum hætti, að athugasemdir bárust ekki í tæka tíð, mun OK taka afstöðu til þeirra athugasemda.
Reikningar skulu greiddir á gjalddaga og eigi síðar en á eindaga. Skal OK sjá svo um, að reikningar séu sendir viðskiptavini með góðum fyrirvara eða birtir honum á annan hátt samkvæmt samkomulagi aðila.
Falli reikningur eða aðrar samningsskuldbindingar í eindaga ber viðskiptavini að greiða dráttarvexti af reikningnum í samræmi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.
6.1 Þáttur viðskiptavina
Viðskiptavini ber að koma upp viðeigandi uppsetningarumhverfi fyrir hverja vél í samræmi við uppsetningarleiðbeiningar framleiðenda eða OK og veita OK nauðsynlegan aðgang að vélbúnaði, hugbúnaði og kerfum.
Viðskiptavini ber að veita OK nægar upplýsingar svo sannreyna megi vinnsluhæfni búnaðar í viðeigandi uppsetningarumhverfi.
Áður en viðskipavinur leitar eftir þjónustu hjá OK ber honum að framkvæma villuleitaraðgerðir, sem framleiðandi eða OK hafa mælt fyrir um, gera nauðsynlegar ráðstafanir til verndar hugbúnaði, gagnaefni og verðmætum, sem um er að ræða í vélbúnaði og fjarlægja (ef um útskiptingu er að ræða) alla flytjanlega geymslumiðla og annan búnað, sem heyrir ekki vélbúnaðinum til.
Viðskiptavini er óheimilt að taka í sundur hugbúnað sem honum er látinn í hendur af OK eða stuðla að nokkrum breytingum á honum.
Í almennum viðskiptum við OK er gengið út frá því að viðskiptavinir séu ásáttir um eftirfarandi:
6.2 Sérstök réttindi OK
7.1 Ábyrgð á búnaði
OK kappkostar að uppfylla væntingar viðskiptavina til gæða selds búnaðar.
Kaup á búnaði frá OK eru háð lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000, þar sem ákvæðum þessara skilmála, sérskilmála, samninga eða viðskiptavenju milli aðila sleppir. Um kaup neytenda á búnaði, þ.e. einstaklinga sem kaupa söluhlut utan atvinnustarfsemi, fer eftir ákvæðum laga nr. 48/2003, um neytendakaup, að því leyti sem þau lög tryggja neytendum betri rétt en skilmálar þessir. OK ábyrgist, að allur vélbúnaður virki og sé í góðu lagi á afhendingardegi.
Reikningur fyrir vélbúnað gildir sem ábyrgðarskírteini og hefst ábyrgðartími, þegar vélbúnaðurinn er afhentur eða við dagsetningu reiknings hvort sem fyrr er.
Vélbúnaður er framleiddur úr nýjum hlutum og/eða notuðum hlutum, er hafa sama notagildi og nýir hlutir frá verksmiðju. Vera kann að vélbúnaður hafi verið settur upp, gangsettur eða prófaður áður en hann er afhentur.
OK ábyrgist, að allur vélbúnaður sé í góðu lagi til vinnslu á afhendingardegi og á ábyrgðartíma vélbúnaðarins.
Allur nýr vélbúnaður, sem OK afhendir , nýtur ábyrgðar á skilgreindu þjónustutímabili. Sé ábyrgðartími ekki skilgreindur, er hann 1 ár. Neytendaábyrgðartími til einstaklinga utan atvinnureksturs er 2 ár. Semja má um aukna ábyrgð og aukinn ábyrgðartíma.
Notaður vélbúnaður, sem seldur er sem slíkur, nýtur ekki ábyrgðar nema um það sé samið sérstaklega.
Ábyrgð tekur til allra framleiðslugalla, lagfæringa og viðgerða að meðtöldum varahlutum og vinnutíma tæknimanna. Ábyrgð gildir ekki, ef bilun verður, sem rekja má til annarra orsaka en framleiðslugalla, svo sem rangrar meðferðar, slits eða notkunar á rekstrarvöru. Ábyrgð á rafhlöðum er eitt ár nema að um annað sé samið.
Kaupandi skal tilkynna OK um meinta galla á búnaði um leið og hann verður gallans var, án ástæðulauss dráttar.
Reynist búnaður hafa verið gallaður við afhendingu eða tilkynni viðskiptavinur OK um gallaðan búnað innan fyrrgreindra tímafresta, skal OK bæta úr gallanum á eigin kostnað.
Ábyrgð á vélbúnaði fellur niður, ef:
OK ber ekki ábyrgð á varðveislu þeirra gagna, sem vistuð kunna að vera á búnaði, nema um það sé samið sérstaklega.
Starfi vélbúnaður ekki í samræmi við lýsingarkröfur á ábyrgðartíma og OK hefur ekki getað lagfært galla eða skipt út búnaðinum fyrir annan vélbúnað með hliðstæðri vinnslugetu innan sanngjarns tíma, á viðskiptavinur rétt á að skila búnaðinum til OK og fá söluverðið endurgreitt.
Ábyrgð á búnaði gildir aðeins á Íslandi nema um annað hafi verið samið.
7.2 Ábyrgð á þjónustu
OK kappkostar að uppfylla væntingar viðskiptavina til gæða seldrar þjónustu.
Kaup neytenda á þjónustu frá OK, þ.e. einstaklinga, sem eru kaupendur þjónustu og kaupin eru ekki í atvinnuskyni eða í tengslum við starf þeirra, eru háð lögum um þjónustukaup, nr. 42/2000, þar sem ákvæði laganna eru neytendum hagstæðari en ákvæði skilmála þessara, sérskilmála eða samninga.
Reikningur fyrir þjónustu gildir sem ábyrgðarskírteini og hefst ábyrgðartími, þegar þjónustan er innt af hendi eða við dagsetningu reiknings, hvort sem fyrr er.
Telji viðskiptavinur, að þjónusta, sem OK veitir, sé haldin galla skal hann tilkynna OK um það um leið og hann verður gallans áskynja, án ástæðulauss dráttar.
Hafi aðrir aðilar en OK gert breytingar á vélbúnaði eða hann verið starfræktur með yfirálagi, getur OK synjað um þjónustu.
Áður en viðskiptavinur biður um þjónustu skal hann framkvæma bilanagreiningu og villuleitandi aðgerðir, sem framleiðandi búnaðar og /eða OK hafa mælt fyrir um.
OK innir ábyrgðarþjónustu af hendi á verkstæði sínu á auglýstum opnunartíma nema um sé að ræða stærri búnað eða umfangsmiklar samsetningar, sem ekki verða með auðveldum hætti færðar úr stað.
Ábyrgð og þjónusta við hugbúnað, sem er þróaður af OK, er háð því að notkun hugbúnaðar og þjónustu hafi verið í samræmi við kerfisskrárlýsingar OK, handbækur og aðrar leiðbeiningar um notkun. OK ábyrgist ekki, að hugbúnaður vinni villulaust, án reksturstruflana eða að allar villur hafi verið lagfærðar. OK ber framleiðandaábyrgð á hugbúnaði, sem hann hefur sjálfur þróað.
Ábyrgð á þjónustu gildir aðeins á Íslandi nema um annað hafi verið samið.
7.3 Ábyrgðartakmarkanir vegna endursölu á tengingum
Bótaréttur viðskiptavinar innan viðkomandi samnings takmarkast við beint tjón sem viðskiptavinur hefur orðið fyrir og gera má ráð fyrir að sé afleiðing af vanefndum viðkomandi samnings. Bótaábyrgð innan samnings nær ekki til óbeins tjóns viðskiptavina, þ.m.t. rekstrartaps, eða tjóns sökum þess að ekki hefur tekist að uppfylla samninga við þriðja aðila að hluta til eða að öllu leyti.
OK ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til breytinga á veituspennu, rafmagnstruflana eða annarra utanaðkomandi áhrifa.
OK ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanetsins hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í stöðvum eða annarra ástæðna, nema rekja megi tjónið til ásetnings eða stórkostlegs gáleysisaf hans hálfu.[BÞ27]
OK ber ekki ábyrgð á tjóni sem viðskiptavinur eða þriðji aðili á vegum viðskiptavinar verður valdur að án meðábyrgðar OK.
Ef OK eða viðskiptavinur getur ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt viðeigandi samningi vegna neyðarréttarlega eða óviðráðanlegra atvika falla skuldbindingar aðilans, þ.m.t. möguleg bótaábyrgð, niður á meðan slíkt ástand varir.
Fyrir hvers konar mistök, villur, vanrækslu, truflanir, tafir, tjón eða galla á þjónustu OK á grundvelli viðkomandi samnings og viðauka hans, skal bótaábyrgð OK fyrir hvert tjónstilvik nema að hámarki þeirri þóknun sem viðskiptavinur hefur sannanlega greitt til OK vegna þeirrar tilteknu þjónustu sem tjónið tengist á síðustu þremur mánuðum fyrir það atvik sem orsakaði umrætt tjón.
Bótaskylda OK í tengslum við viðkomandi samning eða athafnir sem unnar eru í tengslum við samning þennan skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en 500.000 kr. samanlagt.
7.4 Ábyrgð á forritapökkum
OK ber ekki ábyrgð á forritapökkum, sem óháðir framleiðendur og hugbúnaðarfyrirtæki hafa þróað og framleitt. OK innir því ekki af hendi hugbúnaðarþjónustu eða villuleiðréttingar í neinni mynd nema um það sé samið sérstaklega. Jafnframt tekst OK ekki á hendur neins konar skuldbindingar varðandi forritapakkann eða notagildi hans í tilteknu skyni.
Skilmálar framleiðandans fylgja með forritapökkum eða unnt er að afla sér þeirra með því að snúa sér beint til framleiðanda. Gilda þeir skilmálar um þá forritapakka, sem OK selur með vélbúnaði.
Forritapakkar eru seldir og afhentir í því ástandi, sem þeir eru í við afhendingu frá framleiðanda og án þjónustuskuldbindinga af hálfu OK. Þjónusta OK við forritapakka er jafnan reikningsfærð á viðskiptavin nema um annað sé samið.
7.5 Atvik utan ábyrgðar
OK ber enga ábyrgð á kröfum, sem reistar eru á eftirtöldum atvikum:
7.6 Almennar takmarkanir á ábyrgð
Í öllum tilvikum, þar sem galli kemur fram í búnaði eða gagnaefni, miðað við þær skuldbindingar, sem um hefur verið samið, á viðskiptavinur rétt á því, að fram fari viðgerð eða útskipting (í heild eða að hluta) eftir vali OK. Ef svo fer, eftir ítrekaðar tilraunir, að OK tekst ekki að fá búnað eða gagnaefni til að starfa miðað við umsamdar skuldbindingar og viðskiptavinur verður fyrir tjóni af þeim sökum er ábyrgð OK á hugsanlegum skaðabótum þess vegna takmörkuð eins og hér er lýst:
Viðskiptavinir OK samþykkja að halda OK í öllum tilvikum skaðlausum af kröfum, er fara fram úr framangreindum takmörkunum.
Í þessum tveimur ofangreindum flokkum ábyrgðartakmörkunar er það hinn hærri eða sú hæsta þeirra fjárhæða, er til greina kemur í hverjum flokki, sem er hámark ábyrgðarinnar.
Öll þjónusta er veitt án skuldbindinga um viðbragðstíma eða tiltæka varahluti hverju sinni, nema um annað sé samið sérstaklega.
OK ábyrgist ekki að búnaður eða þjónusta sé gallalaus, virki án reksturstruflana, að hugbúnaður starfi rétt eða að allar hugbúnaðarvillur sem og aðrar villur séu lagfærðar.
OK undanskilur sig allri ábyrgð á öllu óbeinu eða afleiddu tjóni, svo sem reksturstapi, glötuðum ágóða eða sparnaði, töpuðum gögnum eða öðru tjóni, sem áður er ótalið, svo og öllum kröfum á hendur viðskiptavini frá þriðja aðila.
OK ber ekki ábyrgð á tjóni sem þriðji aðili veldur.
OK undanskilur sig ábyrgð á öllu tjóni, sem stafar af notkun hugbúnaðar eða gagnaefnis, svo og ef gagnaefnið glatast eða týnist af hvaða ástæðum sem er.
OK undanskilur sig ábyrgð á öllu tjóni, sem verður á persónum, fasteignum og lausafé og kann að stafa af búnaði, sem OK hefur útvegað eða kynni að stafa af þjónustu fyrirtækisins.
OK ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofs á þjónustu eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri þjónustu, hvort sem slíkt má rekja til bilana í línum, bilana í sambandastöðvum eða annarra ástæðna.
Ef aðilar geta ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningum vegna neyðarréttarlegra, óviðráðanlegra atvika, falla skuldbindingar þeirra, þ.m.t. möguleg bótaábyrgð, niður á meðan slíkt ástand varir.
Utan þess sem greinir í skilmálum þessum skal bótaábyrgð OK vegna hvers konar mistaka, villna, vanrækslu, truflana, tafa, tjóns eða galla á þjónustu eða búnaði sem verður í tengslum við samninga aðila, nema að hámarki jafnvirði þeirrar þóknunar sem viðskiptavinur hefur sannanlega greitt til OK fyrir þá tilteknu þjónustu eða búnað sem tjónið tengist á síðustu þremur mánuðum fyrir það atvik sem orsakaði umrætt tjón.
8.1 Hugverkaréttur – uppgötvanir og uppfinningar
OK áskilur sér allan umsaminn rétt til hugverka er tengjast vörum og þjónustu sem látin er viðskiptavini í té.
Skilmálar þessir skulu engin áhrif hafa á hugverkarétt aðila og/eða afnotarétt af hvers konar atvinnuleyndarmálum, gögnum, trúnaðarupplýsingum eða öðru efni sem tengist búnaði eða þjónustu.
OK á allan hugverkarétt á uppgötvunum og uppfinningum sem gerðar eru á grundvelli samnings aðila, nema ef slíkar uppgötvanir eða uppfinningar stafa einungis frá viðskiptavini. Ef OK eða undirverktakar OK og viðskiptavinur gera uppgötvunina eða uppfinninguna í sameiningu skulu öll réttindi henni tengd teljast sameign OK og viðskiptavinar. Hvor aðili um sig skal þá hafa óskertan rétt til að ráðstafa þeim réttindum sínum sem tengjast uppgötvuninni eða uppfinningunni. Ef uppfinningin eða uppgötvunin tilheyrir viðskiptavini einum falla öll réttindi henni tengd til hans. Viðskiptavinur veitir þó OK óafturkallanlegt og endurgjaldslaust leyfi, er gildir um allan heim til að nýta sér uppgötvunina eða uppfinninguna, sem og allar einkaleyfisumsóknir og öll einkaleyfi, sem rót sína eiga að rekja til uppgötvunarinnar eða uppfinningarinnar.
Skilmálar þessir hafa ekki í för með sér neins konar yfirfærslu á höfundarétti frá einum aðila til annars, nema þar sem ákvæði samninga kveða sérstaklega á um það.
8.2 Eigin hugbúnaðarþróun OK
OK notar viðurkenndar aðferðir við þróun, hönnun og gerð hugbúnaðar. Sérgerður hugbúnaður og gagnaefni nýtur ekki ábyrgðar eða þjónustu umfram það, sem sérstaklega er um samið.
Um afnotaréttindi og annars konar aðgang að hugbúnaði, gagnagrunnum og gagnaefni, sem viðskiptamaður fær afhent í sambandi við vinnslu þjónustusamnings, gilda sömu skilmálar og um kaup á slíkum búnaði, nema um annað sé samið.
Ef OK þróar hugbúnað í eigin nafni eða í samvinnu við aðra gilda eftirfarandi skilmálar nema um annað sé sérstaklega samið.
Hugbúnaður og gagnaefni, sem samkvæmt samningi er ekki sérstaklega auðkennt eignar- og höfundarétti viðskiptavinar, lýtur eignar- og höfundarétti OK. Viðskiptavinur öðlast afnotarétt af hugbúnaði, gagnagrunnum og/eða gagnaefni, sem ekki er sérstaklega auðkennt eignar- og höfundarrétti viðskiptavinar. Viðskiptavinur ábyrgist, að þróun eða endurskoðun OK á hugbúnaði og/eða gagnaefni, sem byggt er á eða leitt af hugbúnaði, sem viðskiptavinur afhendir OK á grundvelli samnings, brjóti ekki í bága við réttindi þriðja aðila.
Viðskiptavinur OK hefur öll eðlileg eignarráð yfir hugbúnaði og gagnaefni, sem samkvæmt samningi er auðkennt eignar- og höfundarétti hans. Viðskiptavinur getur aðeins öðlast eignar- og höfundarétt að hugbúnaði, gagnagrunnum eða gagnaefni, sem sérstaklega er þróað fyrir hann.
Aðlögun staðalhugbúnaðar, handbóka og annars ritaðs efnis verður ekki skoðað sem sérstaklega gerður hugbúnaður eða sérgert gagnaefni. Framangreind eignarráð viðskiptavinar sæta þó þeim takmörkunum að OK hefur rétt til að hanna og/eða þróa hugbúnað, gagnagrunna og gagnaefni, byggðan á hugbúnaði og gagnaefni, sem viðskiptavinur hefur eignar- og höfundarétt að. OK skal hafa óheftan ráðstöfunarrétt yfir slíkum hugbúnaði og gagnaefni.
Hvor samningsaðili um sig hefur óhefta heimild til að nota hugmyndir, hugtök, þekkingu og tækni varðandi gagnameðhöndlun, sem þeir hafa hvor í sínu lagi þróað á grundvelli samnings.
8.3 Vörumerki
OK er heimilt að vísa til viðskiptavinar á vefsíðu sinni og birta vörumerki hans þar, sem og í öðru kynningarefni á vegum OK. Viðskiptavinur skal leita samþykkis OK fyrir slíkri notkun á nafni og vörumerkjum OK.
8.4 Upplýsingaöryggi
OK kann að hafa fengið vottun um stjórnun upplýsingaöryggis . Þjónusta er á grundvelli viðkomandi staðals eftir því sem við á. Viðskiptavinur skuldbindur sig til að virða viðkomandi öryggisreglur enda sé hann upplýstur um þær.
Viðskiptavinur telst ábyrgðaraðili í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með áorðnum breytingum, að því er varðar hvers konar efni sem afritað er í samræmi við samninga aðila og áðurnefnd lög ná yfir, enda leiði ekki annan skilning af lögunum. OK telst eftir atvikum vinnsluaðili skv. sömu lögum vegna vinnslu á efni viðskiptavinar skv. samningum aðila.
8.5 Trúnaður
Öll gögn og upplýsingar sem OK verður vísari um viðskiptavin og skjólstæðinga hans skal vera trúnaðarmál þeirra á milli.
Viðskiptavinur skal á sama hátt gæta fyllsta trúnaðar um gögn og upplýsingar er varða OK. Upplýsingar skal aðeins nota í þeim tilgangi sem þær voru fengnar og að því marki sem nauðsynlegt er við framkvæmd samningsskuldbindinga aðila.
Aðilar skuldbinda sig til að ljóstra ekki upp trúnaðarupplýsingum sem þeir hafa móttekið frá gagnaaðila, þ.m.t. upplýsingum um stjórnunarlegar, fjárhagslegar eða tæknilegar aðstæður gagnaðila, aðrar aðstæður varðandi rekstur, viðskipti eða atriði sem ætla má að teljist trúnaðarupplýsingar, sem halda ber leyndum.
Upplýsingar, sem eru eða ætla má að séu á allra vitorði eða öllum aðgengilegar, teljast ekki trúnaðarupplýsingar, nema slíkar aðstæður stafi af broti á þessu ákvæði. Þagnarskylda skal gilda áfram eftir að samningssambandi lýkur.
8.6 Framsal
Aðilum er óheimilt að framselja réttindi og skyldur sem samningssamband þeirra hefur í för með sér nema að fengnu skriflegu samþykki gagnaðila. Þó er aðilum heimilt að framselja réttindi og skyldur til dótturfyrirtækja sem þeir eiga að öllu leyti, svo fremi að viðeigandi leyfi séu framseld til viðtakandi fyrirtækis.
Efni framsalshafi ekki skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum skal framseljandi bera ábyrgð á réttum efndum hans gagnvart gagnaðila.
8.7 Tímafrestur um tilkynningu á galla
Viðskiptavinur OK glatar rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla, ef hann tilkynnir ekki OK án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var og í hverju galli var fólginn.
Ef viðskiptavinur leggur ekki fram kvörtun innan árs frá þeim degi, er hann veitti búnaði eða þjónustu viðtöku, eða tveggja ára sé um neytenda- eða þjónustukaup að ræða, getur hann ekki síðar borið gallann fyrir sig. Þetta gildir þó ekki ef OK hefur í samningi eða sérstakri ábyrgðaryfirlýsingu tekið á sig ábyrgð vegna galla í lengri tíma.
Í samningum við OK geta samningsaðilar ekki gert neina kröfu, af hvaða tegund eða tilefni hún kann að vera, eftir að meira en tvö ár eru liðin frá því að kröfuefnið varð til eða meira en tvö ár eru liðin frá síðustu greiðslu, ef um greiðslufall er að ræða.
8.8 Óviðráðanleg atvik
Geti OK vegna óviðráðanlegra atvika ekki efnt skyldur sínar gagnvart samningsaðila er félagið laust undan öllum skuldbindingum sínum um þann tíma sem óviðráðanleg atvik standa yfir og samningsaðili á ekki rétt til að beita vanefndaúrræðum gagnvart OK, þ.m.t. kröfum um endurgreiðslu, afslátt, skaðabætur, uppsögn eða riftun. Með óviðráðanlegum atvikum (e. Force Majeure) er átt við atburð eða aðstæður sem ekki eru á valdi OK enda sé þannig háttað um þau að OK hafi ekki verið unnt að yfirvinna þau með eðlilegum ráðum. Án takmörkunar um almennt gildi þess, sem að framan greinir skulu atburðir og atvik m.a. taka til styrjalda, uppreisna, skemmdarverka, óeirða, náttúruhamfara, aðgerða stjórnvalda á sviði gjaldeyris- og viðskiptamála, viðskiptabanna, hafnbanna, almennra samgönguhindrana, flutningsbanna, orkuskorti, hvers kyns netárása, óviðráðanlegum atvikum í samskiptum við undirverktaka og hvers kyns ámóta atvika sem valda röskun á efndum OK, þ.m.t. ef birgjar eða þjónustuaðilar OK geta ekki uppfyllt skuldbindingar sínar gagnvart OK á grundvelli óviðráðanlegra atvika sem leiða til þess að OK geti ekki efnt skuldbindingar sínar gagnvart samningsaðila. Komi til þess að óviðráðanleg atvik standi yfir í 30 daga samfellt eða lengur getur OK rift eða sagt samningi við samningsaðila fyrirvaralaust án þess að baka sér bótaskyldu.
8.9 Riftun
Báðir samningsaðilar geta rift samningi án fyrirvara, ef um er að ræða verulega vanefnd af hálfu hins aðilans í samræmi við almennar reglur. OK getur til viðbótar venjulegum vanefndaheimildum m.a. rift samningi vegna vanefnda, ef:
Þá getur OK gripið til eftirfarandi aðgerða séu forsendur til riftunar vegna vanefnda til staðar:
Viðskiptavinur skal halda OK skaðlausum af öllum útgjöldum og tekjumissi, sem OK kann að verða fyrir vegna vanefnda viðskiptavinar á þjónustusamningi.
8.10 Lög og varnarþing
Samningar OK við viðskiptavini og Almennir skilmálar þeim tengdir falla undir íslensk lög. Skulu undanþæg ákvæði laganna víkja fyrir samningum þessum og skilmálum samrýmist þau þeim ekki. Leiði lög um neytendakaup eða lög um þjónustukaup með ófrávíkjanlegum hætti til hagstæðari kjara fyrir viðskiptavini en samningar þessir og skilmálar kveða á um, skulu þau lög gilda.
Rísi mál út af viðskiptasamningum OK og/eða Almennum skilmálum félagsins skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
_